Выбрать главу

„Eru þá allir mættir?“ spurði hann og rétti Þorni sverðið Orkrist með hátíðlegu látbragði. „Látum okkur sjá — hér er Þorinn, tveir, þrír, fjórir, fimm, sex, sjö, átta, níu, tíu, ellefu — hvar eru Fjalar og Kjalar? Jú þarna eru þeir! tólf og þrettán og þá eru þeir allir komnir og þarna er herra Baggi sá fjórtándi. Jæja, jæja, verra gæti það verið, en líka gæti það verið talsvert betra. Engir hestar, enginn matur, vitum ekki einu sinni hvar við erum og flokkar bandóðra drísla á hælum okkar! Áfram nú!“

Og áfram héldu þeir. Gandalfur vissi hvað hann söng. Brátt fóru að berast að eyrum þeirra allskyns óhljóð úr dríslum og hræðileg öskur úr fjarska aftan úr göngunum sem þeir fóru um. Þeir urðu að auka hraðann sem mest þeir máttu og þá var nú verra með Bilbó. Hann gat ekki haldið í við þá — því að það er ótrúlegt hvað dvergar geta hlaupið hratt, skal ég segja ykkur — ef mikið við liggur — svo nú urðu þeir að skiptast á um að bera Bilbó á bakinu.

En dríslar komast enn hraðar en dvergar, og auk þess þekktu þeir hér vel til (þeir höfðu sjálfir grafið öll þessi göng) og voru þar að auki bálreiðir, svo það var alveg sama þótt dvergarnir hlypu sem fætur toguðu, þeir heyrðu hrópin og öskrin stöðugt nálgast. Brátt heyrðu þeir jafnvel slabbið frá dríslalöppunum, fjölda fóta sem virtust vera alveg á hælum þeirra. Nú fór jafnvel að bjarma fyrir blysum þeirra í göngunum fyrir aftan, auk þess sem þeir félagarnir voru nú farnir að þreytast.

„Ó, hví í ósköpunum fór ég að yfirgefa þægilegu hobbitaholuna mína!“ sagði vesalings herra Baggi, þar sem hann hossaðist á hrygglengju Vamba.

„Ó, hversvegna í ósköpunum vorum við að taka þennan galómögulega hobbitaræfil með okkur í fjársjóðaleitina!“ svaraði aumingja Vambi sem var svo feitur, að hann rétt rambaði áfram og svitinn bogaði af honum og rann niður nefið á honum í svækju og skelfingu.

Þegar hér var komið sögu lét Gandalfur sig dragast aftur úr og Þorinn með honum. Þeir komu að skarpri beygju á göngunum. „Snú!“ hrópaði Gandalfur. „Sverð úr slíðrum, Þorinn!“

Ekki var um neitt annað að ræða og dríslunum varð heldur ekki um sel. Þeir komu askvaðandi fyrir beygjuna með öskrum og látum en mættu engum öðrum en Drísilkljúf og Fjandhöggvi, skínandi köldum og björtum. Þeir sem fremstir fóru fleygðu blysunum frá sér og ráku upp ógurlegt vein áður en þeir voru drepnir. Þeir sem aftar komu æptu enn hærra og hörfuðu undan og við það skullu þeir saman við þá sem á eftir þeim komu. Bíturinn og Höggvarinn! æptu þeir og brátt varð alger ringulreið meðal þeirra, þar sem hver flýði sem best hann gat aftur þangað sem þeir komu.

Lengi dirfðist enginn þeirra að fara fyrir beygjuhornið. Og þá voru dvergarnir hlaupnir og komnir langar, langar leiðir eftir dimmum ganginum í ríki dríslanna. Þegar dríslarnir loksins tóku sig á, slökktu þeir á blysunum og settu upp skó með mjúkum sólum og þeir völdu úr mestu hlaupagikkina og þá sem skarpasta heyrn og sjón höfðu. Síðan var þeim hleypt á undan, snöggum sem hreysiköttum á nóttu og hljóðlátum sem leðurblökum.

Það var skýringin á því að hvorki Bilbó, né dvergarnir, né jafnvel Gandalfur heyrðu til þeirra. Og ekki gátu þeir heldur séð til þeirra ljóslausra í myrkrinu. En dríslarnir sem komu hlaupandi hljóðlaust á eftir þeim sáu þá hinsvegar greinilega bera í bjarmann af daufu ljósinu á staf Gandalfs sem fór fremstur fyrir dvergunum.

Skyndilega var þrifið í Dóra sem aftastur hljóp með Bilbó á bakinu, aftan frá úr myrkrinu. Hann rak upp óp og féll um koll en hobbitinn valt af öxlum hans niður í sortann, rak höfuðið í harðan klett og vissi ekki meira af sér.

V. KAFLI

Gátur í myrkri

Þegar Bilbó opnaÐi augun vissi hann ekki, hvort hann hefði nokkuð opnað þau. Því að allt var jafn dimmt eins og hann hefði ekki opnað þau. Og enginn var þarna, hvergi nálægt honum. Ímyndið ykkur bara hvað hann var hræddur. Hann heyrði ekkert, sá ekkert og fann ekki fyrir neinu nema grjótgólfinu sem hann lá á.

Hann velti sér silalega við, þreifaði fyrir sér á fjórum fótum, þangað til hann rakst á vegginn. Hvorki upp né niður fann hann fyrir neinu — engin merki um drísla, engin merki um dverga. Hann snarsvimaði eins og höfuðið væri á floti og gat ekki einu sinni gert sér grein fyrir í hvaða átt þeir höfðu stefnt, þegar hann féll niður. Hann reyndi þó að geta í það eftir því sem hann ímyndaði sér, og þannig skreið hann áfram góða stund, þangað til skyndilega að hönd hans snart eitthvað sem virtist vera hringur úr köldum málmi og lá þar á gólfi ganganna. Þetta átti eftir að marka tímamót í lífi hans, en þá hafði hann ekki hugmynd um það. Hann stakk hringnum einfaldlega í vasa sinn án þess að velta því nokkuð fyrir sér. Það varð heldur ekki séð að hann kæmi honum að nokkrum notum á þessari stundu. En eftir það hélt hann ekki lengi áfram, heldur settist á kalt gólfið og gafst upp, gjörsamlega á valdi vesældarinnar. Þar húkti hann langalengi og sá sjálfan sig fyrir sér að steikja fleskjur og egg í eldhúsinu heima — því að hann þóttist einhvern veginn finna það innan í sér að kominn væri einhver matmálstími eða bita, en það gerði hann aðeins ennþá leiðari.

Hann var gjörsamlega ráðalaus hvað hann ætti að gera, gat ekki einu sinni ímyndað sér hvað hefði gerst eða hvers vegna hann hefði verið skilinn eftir, eða hvers vegna, úr því að hann hafði verið skilinn eftir — að dríslarnir skyldu þá ekki hirða hann. Hann gerði sér ekki einu sinni grein fyrir hvers vegna honum var svo illt í höfðinu. Svarið við þessu öllu var, að hann hafði lengi legið alveg hreyfingarlaus, ósýnilegur og ómeðvitaður í dimmu skoti.

Eftir nokkra stund gáði hann að pípunni sinni. Hún var þá óbrotin sem var þó altént nokkuð. Þá þreifaði hann eftir tóbakspungnum sínum og viti menn! Það var meira að segja tóbak í honum og það var jafnvel enn betra. En þá leitaði hann að eldspýtunum og fann engar og þar með hrundi sú von gjörsamlega. En við nánari umhugsun sá hann, að það væri sér fyrir bestu. Guð mátti vita hvað gæti ruðst út úr dimmum holum þessa hryllingsstaðar ef tóbakslyktin bærist um. Samt fékk það mjög á hann að geta ekki fengið sér neinn reyk. En í því að hann var að fálma niður í alla vasa og leita allsstaðar að eldspýtunum snerti hönd hans litla sverðið – eða rýtinginn sem hann náði frá tröllunum en var alveg búinn að gleyma. Sem betur fer höfðu dríslarnir heldur ekki fundið það, þar sem hann faldi það innan undir buxnastrengnum.

Nú dró hann það út. Það blikaði af því dauft og þó eins og dimmt fyrir augum hans. „Svo það er þá álfablað líka,“ hugsaði hann, „og það sýnir mér, að dríslarnir eru ekki mjög nálægt, en þó ekki nógu langt í burtu.“

Það var eins og þetta herti hann upp. Það var eitthvað svo glæsilegt við það að bera sverð sem smíðað var til forna í Gondólín í Dríslastríðunum miklu sem eru svo fræg af söngvum og sögnum. Hann hafði einnig veitt því athygli hve dríslunum brá í brún þegar þeir skyndilega sáu slík vopn.